Handbolti

Rúnar: Óþarflega spennandi lokamínútur

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Akureyrar, var sammála blaðamanni í því að lið hans hefði gert lokamínúturnar í leiknum gegn Stjörnunni í kvöld óþarflega spennandi.

Akureyri hafði að lokum nauman 25-24 sigur en Stjarnan gat jafnað leikinn í síðustu sókninni þar sem Hörður Flóki Ólafsson varði tvö skot þeirra.

„Þetta er bara ekki vottur af skynsemi eða reynslu hvernig við gerum síðustu mínúturnar spennandi. Ég er ekki ánægður með það," sagði Rúnar sem var þó ánægður með sigurinn. „Ég er ánægður með hann. En við vorum ekki skynsamir undir lokin, fengum á okkur tvær mínútur og spiluðum ekki nógu vel."

„Við spiluðum ágætis sókn í seinni hálfleik og það var ekki mikið til að vera hræddur við í markinu. En fyrri hálfleikurinn fannst mér frábær og varnarleikurinn í seinni hálfleik var að vinna þetta upp. En við getum ekki leyft okkur að slaka svona á því við virðumst ekki finna taktinn aftur. Hefði ekki komið til stórkostleg leiks hjá Flóka hefðum við verið í verri málum."

„Við erum að leiða leikinn en það virðist vera sem sú staða sé of þægileg fyrir okkur. Við förum að spila slakari handbolta og fáum það svoleiðis í hnakkann að við getum ekki staðið undir því. Ég er ánægður með að þegar menn spila vel en ekki þegar menn missa það svona niður," sagði Rúnar sem hrósaði Herði í hástert. „Ég hef ekki séð hann svona lengi."

Hörður Flóki vildi sjálfur ekki koma í viðtal eftir leikinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×