Handbolti

Magnús Gunnar: Hélt við værum með þetta

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Magnús Gunnar Erlendsson.
Magnús Gunnar Erlendsson. Myndasafn JGK

„Ég hélt að við værum komnir með þetta en þetta var virkilega góður leikur tveggja jafnra liða. Ég held að þetta hafi verið góður leikur á að horfa," sagði Magnús Gunnar Erlendsson og hitti naglann á höfuðið eftir sigur Hauka á Fram í frábærum leik.

„Þeir voru fimm yfir í fyrri leiknum og misstu það niður og við ætluðum ekki að gera það sama en ég held að við höfum verið of passívir í sókninni og það vantaði smá sjálfstraust og áræðni til að klára þetta.

Ég ætla samt ekkert að kvarta yfir þessu, þetta var góður leikur og þetta snérist um hvoru megin frákastið myndi lenda til að snúa leiknum, svo jafnt var þetta. Haukarnir náðu augnablikinu í dag en það er einn leikur eftir og vonandi verður hann jafn góður en við klárum hann."

„Við eigum í fullu tré við þetta lið. Við erum alveg búnir að sýna það, bæði í kvöld og í fyrri leiknum. Síðast voru skytturnar að spila vel en ekki dag og á móti kom mikið út úr Haraldi sem var stórkostlegur í dag og nýtti mjög vel. Við eigum skytturnar inni í oddaleiknum, þetta þarf bara að smella," sagði Magnús að lokum í samtali við Vísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×