Handbolti

Parketið bíður

"Það er bara skítaveður úti. Það er það eina sem ég hef áhyggjur af," sagði Sigurður Eggertsson hjá Val þegar Vísir spurði hann út í leikinn gegn HK í úrslitakeppninni í kvöld.

Valsmenn geta tryggt sér sæti í úrslitarimmu N1 deildarinnar með sigri í Digranesi í kvöld eftir nokkuð öruggan sigur í fyrsta leiknum á Hlíðarenda, þar sem sigur Vals var raunar aldrei í hættu.

"Nei, mér fannst sigur okkar aldrei í hættu í þeim leik, en á móti kemur að sigur þeirra var aldrei í hættu í leiknum þar á undan. Við vorum flottir í síðasta leik og vona að við verðum það aftur í kvöld. Við erum ekkert spes sóknarlið en þegar við erum með flotta vörn og markvörslu erum við góðir," sagði Sigurður.

Ólafur Haukur Gíslason átti stórleik í marki Vals í fyrsta leiknum og Sigurður vill fá hann í landsliðið.

"Ólafur er yfirburðamarkvörður í þessari deild og það er skandall að þjálfarinn okkar velji hann ekki í landsliðið sitt," sagði Sigurður í léttum dúr og vísaði til þess að Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals er aðstoðarlandsliðsþjálfari.

Hann segir mikilvægt fyrir Valsliðið að mæta einbeitt til leiks í Kópavoginn í kvöld.

"Það skiptir miklu að hausinn sé í lagi, því það er stundum tíu marka sveifla milli leikja þessara liða og það er bara hausinn. Þetta eru jú sömu leikmenn sem eru að spila."

Við spurðum Sigurð að lokum hversu mikilvægt það væri fyrir Valsmenn og hann sjálfan að klára einvígið í Digranesi í kvöld.

"Mér finnst það voðalega mikilvægt af því ég þarf að klára að leggja parket á íbúðina mína og það er voðalega leiðinlegt að gera það í einhverju stressi. Ég hef líka gott af því að fá smá hvíld af því ég er svo slæmur í skrokknum," sagði Sigurður léttur í bragði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×