Handbolti

Halldór Ingólfsson: Þeir voru bara miklu betri en við í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. Mynd/Stefán
Halldór Ingólfsson, spilandi þjálfari Gróttu, gat ekki verið með vegna meiðsla. Hann var daufur í leikslok enda áttu hans menn fá svör við sterkri vörn HK-liðsins.

„Við vorum alls ekki á réttu róli og við vorum ekki tilbúnir. Sóknarlega vorum við slakir og við áttum mörg slök og illa ígrunduð skot á markið. Við fengum hraðaupphlaup og annað í bakið," sagði Halldór. Hann vildi þó ekki samþykkja að HK-liðið hafi átt svar við sóknarleik hans manna.

„Þegar við spiluðum okkar kerfi og reyndum að spila saman þá gekk þetta ágætlega en svo fóru menn að detta í einstaklingsframtök og þá fór að halla undan fæti. Við misstum þá fram úr okkur og það er staða sem þeir vilja vera í. Þeir vilja vera rétt yfir svo þeir geta spilað sinn hæga bolta. Þeim tókst það," sagði Halldór.

HK vann fimmtán mínútna kafla í kringum hálfleikinn 9-2 og náði sjö marka forskoti.

„Þessi endakafli í fyrri hálfleik og það að ná ekki að brúa bilið í upphafi seinni hálfleiks fór með okkur. Í staðinn fyrir að minnka muninn þá náðu þeir að auka við og þá var einhver uppgjöf í liðinu. Þeir voru bara miklu betri en við í dag," viðurkenndi Halldór.

„Við vorum búnir að vinna fimm af sex síðustu leikjum okkar en kannski sat Víkingsleikurinn í mönnum. Það var tvíframlengdur leikur og það er stutt á milli leikja.. Við höfum ekki neina svakalega mikla breytt og þetta var því pinkulítið erfitt," sagði Halldór sem er ekki mikið meiddur.

„Ég tognaði aðeins aftan í læri en eftir viku þá verð ég orðinn góður," sagði Halldór að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×