Fótbolti

Ef ekki Dzeko þá Adebayor

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emmanuel Adebayor, leikmaður Arsenal.
Emmanuel Adebayor, leikmaður Arsenal. Nordic Photos / AFP

Adriano Galliani, varaforseti AC Milan, hefur staðfest að ef félaginu takist ekki að fá Edin Dzeko frá Wolfsburg muni það reyna að lokka Emmanuel Adebayor frá Arsenal til Ítalíu.

Dzeko átti frábæru gengi að fagna með Wolfsburg sem varð meistari í Þýskalandi á nýliðnu tímabili og segir Galliani að Dzeko sé efstur á óskalista félagsins nú í sumar.

Félagið ætli þó að fá framherja sama hvað tautar og raular. „Við erum bara að leita að framherja og okkar markmið er að fá Dzeko," sagði Galliani í samtali við ítalska fjölmiðla. „Hann er leikmaður Wolfsburg og félagið hefur rétt á að halda honum - jafnvel þótt að leikmaðurinn sjálfur segist vilja koma til Milan."

„Ef það tekst ekki að fá Dzeko gæti verið að við reynum að fá þá Luis Fabiano (frá Sevilla) eða Adebayor."

„Við höfum fundað með Wenger (stjóra Arsenal) en hann bauð okkur ekki að fá Adebayor. Hefði hann gert það væru viðræður hafnar á milli félaganna."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×