Íslenski boltinn

Gunnleifur: Þetta er hápunktur knattspyrnusumarsins í Kópavogi

Ómar Þorgeirsson skrifar
Gunnleifur Gunnleifsson.
Gunnleifur Gunnleifsson. Mynd/Vilhelm

Landsliðsmarkvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson er nú loksins kominn með leikmheimild með HK að nýju eftir ævintýri með FC Vaduz og snýr til baka í kvöld í stærsta leik sumarsins hjá Kópavogsbúum Þegar erkifjendurnir HK og Breiðablik mætast í 8-liða úrslitum VISA-bikarsins á Kópavogsvelli.

Markvörðurinn snjalli er að sjálfsögðu fullur tilhlökkunnar fyrir leiknum og á von á hörku baráttu og mikilli skemmtun.

„Þetta eru rosalega skemmtilegir leikir og hafa verið það í gegnum tíðina og ég held að það verði engin breyting á því í kvöld. Þetta skiptir máli fyrir svo marga hérna í Kópavogi hvernig þetta fer og ég veit að leikmenn og stuðningsmenn beggja félaga hafa beðið lengi eftir þessum leik. Þetta er hápunktur knattspyrnusumarsins í Kópavogi og það verður örugglega frábær stemning á vellinum," segir Gunnleifur.

HK-ingar eru sem stendur í toppbaráttu 1. deildar en Breiðablik sogast nú nær botninum í Pepsi-deildinni með hverri umferðinni og er nú aðeins þremur stigum frá fallsæti, eftir annars fína byrjun í upphafi tímabils. Gunnleifur telur að staða liðanna í deildunum eigi ekki eftir að skipta neinu máli í kvöld.

„Þetta er náttúrulega ný keppni og undanúrslitin innan seilingar fyrir bæði lið. Ég held að staða liðanna í deildinni eigi ekki eftir að breyta neinu í kvöld og bæði lið mæta eflaust brjáluð í leikinn. Leikmenn beggja liða mæta hundrað prósent klárir til leiks og ég á alls ekki von á því að Blikar mæti eitthvað litlir til leiks þrátt fyrir gengi þeirra í deildinni undanfarið," segir Gunnleifur.

Leikir kvöldsins í VISA-bikarnum eru:

HK-Breiðablik, Kópavogsvelli kl. 19.15

Keflavík-FH, Sparisjóðsvelli kl. 19.15

Fram-Fylkir, Laugardalsvelli kl. 19.15






Fleiri fréttir

Sjá meira


×