4000 ára gömul öxi og fjórar fornsögulegar beinagrindur voru á meðal fornleifa sem fundust þegar grafið var fyrir Ólympíugarðinum í London.
Rómverskur myntpeningur, leirtau frá miðöldum og heillegur fiskibátur frá 19. öld fundust einnig á þessu 2,5 ferkílómetra svæði í austurhluta Lundúna.
Munirnir fundust þegar grafið var fyrir byggingunum á svæðinu, en sú vinna var reyndar vel á veg komin þegar blásið var til leiks á Ólympíuleikunum í Peking síðasta sumar.
Ólympíuleikarnir fara fram í London í þriðja sinn árið 2012 en leikarnir voru áður haldnir í borginni árin 1908 og 1948. Leikarnir hefjast eftir 1239 daga.