Handbolti

Óvæntur sigur Fram - frábær seinni hálfleikur Safamýrarpilta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kárason skoraði 9 mörk fyrir Fram í kvöld.
Rúnar Kárason skoraði 9 mörk fyrir Fram í kvöld. Mynd/Srefán

Fram gerði sér lítið fyrir og lagði Íslands- og deildarmeistara Hauka, 32-28, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum N1 úrslitakeppninnar að Ásvöllum.

Fram lék frábærlega í síðari hálfleik og var betri á öllum sviðum leiksins.

Liðið lék frábæra vörn og átti í litlum vandræðum með að finna glufur á vörn Hauka í síðari hálfleik. Davíð Svansson varði frábærlega í síðari hálfleik en markvarslan hjá Haukum var engin í seinni hálfleiknum eftir frábæran fyrri hálfleik.

Rúnar Kárason skoraði mest fyrir Fram, 9 mörk, og Magnús Stefánsson 6. Hjá Haukum var Andri Stefan atkvæðamestur með 8 mörk en þeir Sigurbergur Sveinsson og Kári Kristján Kristjánsson skoruðu 5 mörk hvor.

Haukar voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 16-11, eftir fjörugan og harðan fyrri hálfleik.

Fram mætti mjög ákveðið til leiks og skoraði þrjú fyrstu mörkin og héldu undirtökunum í leiknum þar til tíu mínútur voru til leikhlés. Þá skoraði Sigurbergur Sveinsson sitt fyrsta mark. Það kveikti í leikmönnum Hauka sem keyrðu yfir Fram lokaspretti fyrri hálfleiks.

Birkir Ívar Guðmundsson sá til þess að Fram myndi ekki stinga af í fyrri hluta hálfleiksins en Birkir hefur varið 54,5% skota Fram í hálfleiknum. Andri Stefan hélt sóknarleik Hauka uppi framan af þar til sóknarleikur liðsins small síðustu mínúturnar.

Hjá Fram er Rúnar Kárason atkvæðamestur með fimm mörk en flest þeirra komu snemma leiks en liðið hefur lítið ráðið við varnarleik Hauka eftir góðar upphafsmínútur þegar liðið virtist hafa fundið lausnina á 5-1 vörn deildarmeistaranna.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×