Handbolti

Heimir Örn: Ekki ánægður með spilamennskuna

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Heimir átti ágætan leik í kvöld.
Heimir átti ágætan leik í kvöld.
Heimi Erni Árnasyni var létt þegar blaðamaður ræddi við hann eftir leik Akureyrar og HK í kvöld. Akureyri hafði nauman sigur eftir að hafa haft leikinn í hendi sér.

"Þetta er alveg óskiljanlegt. Við vorum alltaf að fara fjórum mörkum yfir og ég held að fimmta markið hefði klárað þá. En í staðinn erum við kærulausir og þeir jafna."

"Ég veit ekki alveg hvernig ég á að skýra þetta. Það er eins og allir í liðinu bara missi hraða síðustu tíu mínúturnar og ég held að þetta sé í hausnum á mönnum af því við erum að gera þetta aftur og aftur. En við kláruðum leikinn og það skiptir öllu máli, mér er svosem sama hvernig leikirnir eru ef við fáum öll stigin," sagði Heimir.

"Við erum á góðu róli núna, búnir að vinna fjóra í röð og komnir að toppnum. Við förum að ég held örugglega í Deildabikarinn á milli jóla og nýárs sem er fínt fyrir okkur, við erum alltaf bara einir hérna fyrir norðan," sagði Heimir.

Aðspurður hvort hann hefði verið ánægður með spilamennskuna lá ekki á svarinu: „Nei. Það er ekkert hægt. Ég og fleiri erum sóknarlega ekki að spila vel en þetta er reyndar kaflaskipt. Þetta er samt ekki nógu gott og við þurfum að klára það að spila heilan leik góðan. Öll lið eiga slæma kafla en við þurfum bara að passa að þeir góðu séu lengri hjá okkur en andstæðingunum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×