Handbolti

Gunnar: Lykilmenn okkar voru langt frá sínu besta

Ómar Þorgeirsson skrifar
Gunnar Magnússon.
Gunnar Magnússon. Mynd/Anton

„Þetta var skelfilegt. Lykilmenn okkar voru langt frá sínu besta og náðu sér engan veginn á strik og við erum einfaldlega ekki með það breiðan hóp að við megum við því.

Við þurfum að reyna að auka breiddina hægt og bítandi en það er sama hvernig litið er á þetta, Fram var bara miklu betra á öllum sviðum. Við þurfum bara að horfast í augu við það. Það þýðir ekkert að afsaka sig," sagði Gunnar Magnússon, þjálfari HK, í leikslok eftir 33-24 tap HK gegn Fram í N1-deildinni í handbolta.

Þetta var fyrsta tap HK í deildinni í vetur en liðið var talsvert frá sínu besta eins og lokatölur gefa til kynna um.

„Hraðaupphlaupin hjá þeim fóru illa með okkur, sérstaklega í fyrri hálfleiknum og þau komu náttúrulega í kjölfarið á því að við fórum illa af ráði okkar í sókninni.

Sóknarleikurinn lagaðist aðeins í seinni hálfleik en varnarleikurinn og markvarslan var heilt yfir alls ekki nægilega góð. Við vissum að þeir kæmu brjálaðir í þennan leik eftir erfiða byrjun og við vorum undirbúnir undir það en sýndum það ekki inni á vellinum. Mér fannst þessi frammistaða varla boðleg hjá okkur," sagði Gunnar vonsvikinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×