Handbolti

Rúnar: Bubbi vann okkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Akureyrar.
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Akureyrar. Mynd/Anton

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Akureyrar, segir að frammistaða Hlyns Morthens í marki Vals hafi skilið á milli liðanna í kvöld. Valur vann fjögurra marka sigur, 23-19.

„Það stendur upp úr að við vorum ekki skora nógu mörg mörk," sagði Rúnar. „Bubbi (Hlynur Morthens) dró einfaldlega úr okkur tennurnar enda urðu skotin okkar lélegri og lélegri eftir því sem leið á leikinn enda varði hann nánast allt sem kom á markið. Hann vann okkur bara einn og óstuddur."

Hann segist ekki ánægður með sóknarleik sinna manna í kvöld enda skotnýting liðsins ekki upp á marga fiska eða aðeins 36,5 prósent. Af 52 skotum Akureyrar tók einn maður, Árni Sigtryggsson, 20 skot.

„Það vantaði alla ógnun vinstra megin á vellinum og menn voru svolítið ragir. Þetta er vandamál fyrir okkur þegar við fáum góða markvörslu á móti okkur því við eigum ekki marga aðra valkosti í sókninni. Þegar enginn virðist finna sig vinstra megin erum við að spila út í loftið og vona að einhver fari að gera eitthvað."

„En fyrst og fremst leyfum við Bubba að vinna okkur hvað hugarfarið varðar. Við fengum ágætis skotfæri í leiknum en vorum ekki að nýta þau af heilum hug."

Rúnar segir margt ágætt við varnarleik liðsins í kvöld. „Ég er með fínasta varnarlið en ég var ósáttur við að við vorum ekki að spila upp á hraðaupphlaupin í seinni hálfleik eins og við gerðum í þeim fyrri. Við fengum færri mörk á okkur í seinni hállfeik en þeim fyrr sem þýðir að varnarleikurinn var betri þá. En því miður erum við allt of mikið að róa leikinn og vanda okur. Það vantaði þor að taka sénsinn."

„Mér fannst það jákvæðasta við leikinn að við náðum að vinna okkur út úr ákveðnum vandræðum í varnarleiknum. Þeir náðu að slíta okkur í sundur í upphafi leiks en við náðum að laga það og gera þeim erfiðara fyrir. Haffi (Hafþór Einarsson) var með fína markvörslu og þetta er vissulega eitthvað sem við getum byggt á."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×