Handbolti

Ingvar: Vorum klaufar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ingvar Árnason í baráttu við Sigurberg Sveinsson Haukamann.
Ingvar Árnason í baráttu við Sigurberg Sveinsson Haukamann. Mynd/Stefán

Ingvar Árnason, leikmaður Vals, kennir klaufaskap Valsmanna um hvernig fór í leik liðsins gegn Haukum í úrslitum um Íslandsmeistaratitill karla í handbolta í kvöld.

Haukar unnu leikinn, 29-24, og komu sér þar með í 1-0 forystu í einvíginu.

„Við vorum að klára sóknirnar okkar illa auk þess sem við fengum ekki þá vörn og markvörslu sem við vonuðumst eftir. En fyrst og fremst var um klaufaskap að kenna hvernig fór," sagði Ingvar.

„Við vorum samt í hörkuséns þar til tvær mínútur voru eftir af leiknum. Nú verðum við að rífa okkur upp og mæta sterkir til leiks á miðvikudaginn."

Valsmenn hafa ekki enn tapað á heimavelli sínum í vetur en þó svo að liðið ynni heimaleiki sína gegn Haukum dygði það ekki til. Ingvar telur að liðið geti þrátt fyrir allt unnið minnst einn leik á Ásvöllum, heimavelli Hauka.

„Alveg klárlega. Við ætluðum að vinna hér í kvöld og mér fannst við ekki langt frá því þótt munurinn hafi verið fimm mörk í lokin. Við vorum bara klaufar."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×