Breski tennisleikarinn Andy Murray vann sinn þriðja sigur í röð á stigahæsta manni heims Rafael Nadal um helgina. Murray vann 6-3 4-6 og 6-0 í viðureign þeirra félaga í úrslitaleik á móti í Rotterdam.
Þetta var þriðji sigur Murray á Nadal í röð, en það verður að teljast nokkuð góður árangur gegn besta tennisleikara heimsins um þessar mundir.
Nadal gekk þó ekki heill til skógar í gær og var nánast á annari löppinni vegna hnémeiðsla í þriðja settinu.
"Þetta var leiðinlegt fyrir Rafa, ég veit að hann var meiddur. Það sýnir bara hve góður leikmaður hann er. Hann náði að vinna nokkra leiki þó hann væri á annari löppinni," sagði Murray, sem þarna vann sinn 10. titil á ferlinum.