Handbolti

Freyr: Var kominn með upp í kok af handbolta

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Freyr Brynjarsson.
Freyr Brynjarsson. Mynd/Anton

Hornamaðurinn Freyr Brynjarsson gekk í dag frá nýjum tveggja ára samningi við Íslandsmeistara Hauka.

„Þetta er tveggja ára samningur en með endurskoðun eftir eitt ár," sagði Freyr sem var einnig að spá í Noreg.

„Það kom fyrirspurn frá Noregi en það gerðist allt svo hægt að ég gaf það bara upp á bátinn. Það voru allt of margir milliliðir og ekkert að gerast."

Freyr átti verulega gott tímabil með Haukum í vetur og var einn af lykilmönnunum í Íslandsmeistaraliði félagsins. Hann var samt kominn nálægt því að hætta.

„Það var í desember sem ég var alveg kominn með upp í kok af handbolta. Þá var ég smá meiddur og eitthvað þunglyndur. Svo var ég valinn í B-landsliðið í janúar og það reif mig algjörlega upp á nýjan leik," sagði Freyr sem er ánægður hjá Haukum.

„Haukar voru eina liðið sem kom til greina. Þar líður mér vel og er virkilega vel haldið utan um hlutina hjá félaginu. Ég er auðvitað Valsari líka og þetta eru einu liðin sem ég get hugsað mér að spila fyrir. Þá vantar aftur á móti ekki mann í hornið hjá sér," sagði Freyr Brynjarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×