Handbolti

Aron: Ætlum að klára þetta í kvöld

Aron Kristjánsson
Aron Kristjánsson Mynd/Stefán

"Við erum að fara í Valsheimilið til að vinna og ætlum að klára þetta," sagði Aron Kristjánsson þjálfari Hauka í samtali við Vísi þegar hann var spurður út í fjórða leikinn gegn Val í lokaúrslitum N1 deildarinnar í kvöld.

Leikirnir þrír til þessa hafa unnist á heimavelli og því hafa Haukarnir 2-1 forystu í einvíginu og geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri í kvöld.

"Það hefur verið nokkur munur á liðunum heima og úti en við náðum nú að koma þessu í framlengingu í síðasta leik. Við höfum verið ágætir á útivelli í vetur og markmiðið í kvöld er að vinna. Við hugsum aldrei um annað en það að klára næsta leik og það er það sem við höldum fast í," sagði Aron og ítrekar það sem hann sagði áður en einvígið hófst.

"Ég sagði það fyrir þetta einvígi að liðið sem spilaði bestu vörnina og yrði með bestu markvörsluna myndi vinna þetta einvígi og hingað til höfum við verið í því hlutverki. Út frá varnarleiknum erum við að fá mörg góð hraðaupphlaup og það er rétta uppskriftin. Svo gekk sóknarleikurinn okkar betur í síðasta leik en í hinum tveimur og vonandi heldur það áfram," sagði Aron.

Hann vill gjarnan klára einvígið í kvöld og forðast að þurfa að spila hreinan úrslitaleik. "Í slíkum leik getur allt gerst og úrslit ráðist á skoti sem fer í stöng og inn eða stöng og út. Svo geta leikmenn lent í veikindum og eitt og annað, þannig að menn verða að nýta hver tækifæri sem þeir fá til að klára þetta. Við munum reyna það í kvöld," sagði Aron.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 20:15








Fleiri fréttir

Sjá meira


×