Viðskipti erlent

Apple gæti átt von á tugmilljarða reikningi frá Nokia

Það gæti kostað Apple gífurlegar upphæðir ef Nokia vinnur dómsmál sem farsímarisinn hefur höfað á hendur Apple fyrir ólögleg not af tækni Nokia sem enn er varin með einkaréttarákvæðum. Málshöfðunin beinist að notkun Apple á þessari tækni í iPhone símum sínum.

Málið var höfðað í síðustu viku og enn hafa engin viðbrögð komið frá stjórn Apple við því. Bloomberg-fréttaveitan hefur rætt við nokkra sérfræðinga um málið og þeir eru sammála um það að skaðabæturnar verði í tugmilljarða kr. klassanum ef Nokia vinnur málið.

Neil Mawston frá greiningarfyrirtækinu Strategy Analyctis segir í samtali við Bloomberg að Apple gæti neyðst til að greiða 25 til 125 milljarða kr. fyrir brot á einkarétti Nokia. Sem stendur hafa 34 milljónir iPhones verið seldir á heimsvísu.

Apple hafði ástæðu til að gleðjast í síðustu viku þegar ársreikningur þeirra fyrir þetta ár var birtur en hagnaður hafði aukist um 18% m.v. fyrra ár. Og það var einkum iPhone að þakka.

Ben Wood greinandi hjá CCS Insight segir í samtali við Reuters að Nokia hafi sennilega rétt fyrir sér í kæru sinni á hendur Apple.

„Það er næstum ómögulegt að framleiða farsíma án þess að notast við tækni sem Nokia hefur einkarétt á," segir Wood.

Undir venjulegum kringumstæðum borga framleiðendur farsíma um 15% af söluverði þeirra fyrir réttinn til að nota tækni sem Nokia hefur einkarétt á. Nokia hefur gert samninga við 40 framleiðendur á þessu sviði.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Apple lendir í dómsmáli vegna iPhone. Þegar síminn var settur á markaðinn kom í ljós að Cisco átti réttinn að nafninu iPhone. Í því máli var fljótlega gerð sátt og borgaði Apple óþekkta upphæð fyrir nafnið. Hinsvegar er talið að mál Nokia gegn Apple geti staðið yfir árum saman.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×