Handbolti

Björgvin hafnaði Hammarby og samdi við Hauka

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Björgvin í leik með Stjörnunni gegn Haukum.
Björgvin í leik með Stjörnunni gegn Haukum.

Handknattleikskappinn Björgvin Hólmgeirsson hefur yfirgefið herbúðir Stjörnunnar og gengið frá tveggja ára samningi við Íslandsmeistara Hauka. Skrifað var undir samninginn í gærkvöldi.

Björgvin hafnaði á sama tíma spennandi samningstilboði frá sænska liðinu Hammarby sem Staffan Olsson þjálfar.

„Þetta tilboð frá Hammarby var mjög spennandi en ég vil klára íþróttafræðina í háskólanum áður en ég fer út. Ég á bara eitt ár eftir og fannst gáfulegra að klára það áður en ég fer að reyna fyrir mér utan landsteinanna," segir Björgvin við Vísi í morgun.

„Hammarby er spennandi lið. Flottir strákar sem eru allir á svipuðum aldri og ég og svo Staffan að þjálfa. Það hefði verið gaman að vinna með honum."

Björgvin var sterklega orðaður við Hauka þegar hann fór til Stjörnunnar frá ÍR á sínum tíma. Hann segist ekki sjá eftir því að hafa farið til félagsins.

„Ég átti mjög góða tíma í Stjörnunni. Það er því miður ekki eins mikið í gangi hjá félaginu núna og í Haukum og því ákvað ég að breyta til. Ég er spenntur fyrir því að byrja hjá Haukum," sagði Björgvin sem mun væntanlega leika sem miðjumaður hjá Haukum en þá stöðu lék hann með ÍR í yngri flokkunum.

Þó svo samningur Björgvins sé til tveggja ára þá getur hann farið út næsta sumar ef eitthvað spennandi kemur upp á borðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×