Íslenski boltinn

Lélegt jafntefli í Lúxemborg

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Garðar Jóhannsson skoraði mark Íslands með skalla.
Garðar Jóhannsson skoraði mark Íslands með skalla.

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta náði aðeins jafntefli, 1-1, gegn arfaslöku liði Lúxemborgar en liðin mættust ytra í dag. Garðar Jóhannsson skoraði mark Íslands í leiknum.

Fyrri hálfleikur var vægast sagt ævintýralega lélegur af beggja hálfu. Ísland meira með boltann en skapaði ekki eitt einasta færi allan hálfleikinn.

Leikur liðsins gat ekki versnað og því var eðlilega allt annað að sjá til liðsins í síðari hálfleik. Sóknarloturnar urðu beittari og innkoma Garðars Jóhannssonar af bekknum hjálpaði mikið til.

Garðar kom Íslandi einmitt yfir á 63. mínútu er hann skallaði aukaspyrnu Emils Hallfreðssonar í netið.

Garðar fékk algjört dauðafæri fimm mínútum síðar en hitti ekki boltann. Eiður Smári fékk síðan einnig kjörið færi til þess að skora en skot hans fór fram hjá markinu.

Mínútu eftir færi Eiðs, eða á 75. mínútu, komust heimamenn í sókn. Sendu boltann í teiginn þar sem Ísland náði ekki að hreinsa, gleymdi að dekka og svo hefði Árni Gautur hugsanlega átt að gera betur er Kintziger skaut boltanum í netið.

1-1 og það reyndust vera lokatölur leiksins. Léleg úrslit og slök frammistaða hjá íslenska liðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×