Körfubolti

Tyrkir unnu Spánverja á EM í körfu í Póllandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hedo Turkoglu er í stóru hlutverki hjá Tyrkjum.
Hedo Turkoglu er í stóru hlutverki hjá Tyrkjum. Mynd/AFP

Tyrkir héldu áfram sigurgöngu sinni á EM í körfu í Póllandi með 63-60 sigri á Spánverjum í fyrsta leik liðanna í milliriðli í gær. Tyrkir hafa þar með unnið alla fjóra leiki sína á mótinu alveg eins og Frakkar og Grikkir í hinum milliriðlinum.

Hedo Turkoglu fer fyrir tyrkneska liðinu ekki ósvipað og hann gerði með Orlando Magic í NBA-deildinni í vor. Ersan Ilyasova var stigahæstur í liði Tyrkja með 15 stig en hann varði einnig síðasta skot Spánverja í leiknum. Turkoglu lét sér nægja að skora 2 stig í þessum leik.

NBA-stjörnurnar Pau Gasol og Rudy Fernandez voru stigahæstir hjá Spánverjum með 16 stig hvor en spænska liðið sem var talið sigurstranglegt fyrir mótið hefur aðeins unnið 2 af 4 leikjum sínum á mótinu.

Nenad Krstic, leikmaður Oklahoma City Thunder, var með 18 stig og 8 fráköst í 77-72 sigri Serbíu á Póllandi. Jaka Lakovic skoraði 24 stig fyrir Slóvena sem unnu 81-58 stórsigur á Litháum.

Tyrkir eru efstir í milliriðlinum en Spánverjar eru í fjórða sæti á eftir Slóvenum og Serbum. Fjögur efstu liðin í milliriðlinum komast áfram í átta liða úrslitin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×