Íslenski boltinn

Verður vítakeppni á Valsvellinum?

ÓMar Þorgeirsson skrifar
Það má búast við hörkuleik hjá Val og Stjörnunni.
Það má búast við hörkuleik hjá Val og Stjörnunni. Mynd/Stefán
Undanúrslit VISA-bikars kvenna fara fram á morgun, Valur og Stjarnan spila á Vodafonevellinum og Breiðablik og Fylkir á Kópavogsvelli. Fréttablaðið fékk þjálfarana Dragan Stojanovic hjá Þór/KA og Guðrúnu Jónu Kristjánsdóttur hjá Aftureldingu/Fjölni til þess að spá í spilin.

Guðrún Jóna segir nánast ómögulegt að spá um hvort Valur eða Stjarnan vinni og telur að framlengingu og vítaspyrnukeppni þurfi til að skera úr um hvort liðið fari í úrslitaleikinn.

„Þetta verður sama baráttan og í leiknum fyrr í sumar og ég á von á mjög föstum leik. Bæði lið hafa spilað vel í sumar og þetta getur farið á báða vegu," segir Guðrún Jóna. Dragan hallast frekar að sigri Vals en telur þó að ekki verði um neinn stórsigur að ræða.

„Ég held að Valur sé með of sterkt lið fyrir Stjörnuna. Valur er með frábæra leikmenn í öllum stöðum á vellinum og ég hugsa að þetta fari 2-0 fyrir Val. Þetta verður samt mikill baráttuleikur og Stjörnustelpur mæta grimmar til leiks eftir tapið gegn Breiðabliki í deildinni," segir Dragan.

Guðrún Jóna á von á jöfnum leik hjá Breiðabliki og Fylki en hallast þó að Blikasigri, í markaleik.

„Bæði Breiðablik og Fylkir spila mjög skemmtilegan sóknarbolta þannig að ég á von á því að þetta verði mjög hraður og opinn leikur. En miðað við hvernig liðin hafa verið að spila undanfarið þá held ég að Blikarnir vinni þetta á endanum. Það er engin spurning að Fylkisstúlkur geta gert Blikum skráveifu en eigum við ekki að segja 3-2 fyrir Breiðablik, þó svo að þetta verði mjög tvísýnt," segir Guðrún Jóna. Dragan telur að öflugur sóknarleikur Blika verði of stór biti fyrir Fylki á morgun.

„Blikastúlkur eru með frábært lið og frábæran þjálfara. Þær eru með skemmtilegasta sóknarliðið og sex fremstu leikmennirnir á miðjunni og í sókninni eru allir mjög góðir og geta allar þær stúlkur klárað leikinn upp á sitt einsdæmi. Eigum við samt ekki að segja að þetta fari 4-1 fyrir Breiðablik," segir Dragan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×