Handbolti

Patrekur og Atli líklega áfram hjá Stjörnunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Arnþór

Allar líkur eru á að Patrekur Jóhannesson og Atli Hilmarsson verði áfram þjálfarar karla- og kvennaliðs Stjörnunnar á næstu leiktíð.

Þór Jónsson, formaður handknattleiksdeildar Stjörnunnar, sagði viðræður komnar vel á veg við báða aðila.

Hann sagði það aðeins formsatriði að ganga frá samningum við Patrek og að viðræður við Atla gætu klárast á allra næstu dögum.

Patrekur sagði í samtali við Vísi að honum lítist vel á að halda áfram þjálfun karlaliðs Stjörnunnar.

„Ég finn að það eru fleiri sem vilja koma að handboltanum í Stjörnunni og á að leggja meiri vinnu í umgjörð og annað slíkt. Það er aðalástæðan fyrir því að ég ákvað að vera áfram," sagði Patrekur.

„Ég geri mér grein fyrir því að einhverjir leikmenn munu fara en mér finnst það spennandi tilhugsun að byggja upp lið fyrst og fremst á heimamönnum og ungum leikmönnum. Ég held að það sé alveg öruggt að það verði kjarni liðsins."

Hann segir þó ekki útilokað að leikmenn eins og Björgvin Hólmgeirsson, Ragnar Helgason, Fannar Þorbjörnsson, Jón Heiðar Gunnarsson og Hrafn Ingvarsson verði áfram.

„Enginn þeirra hefur gefið það út að þeir ætli að fara annað og vona ég að einhverjir þeirra verði áfram. En ég á von á því að meirihluti leikmannahópsins verði byggður upp á uppöldum Stjörnumönnum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×