Handbolti

Kári: Erum langbestir í dag

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Kári Kristján Kristjánsson bregður á leik.
Kári Kristján Kristjánsson bregður á leik. Mynd/Anton

Kári Kristján Kristjánsson var glaðbeittur eftir að hafa tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð í kvöld.

 

„Þetta er algjör draumur. Við unnum titilinn í fyrra á stigum en þegar ég var patti ólst ég upp við úrslitakeppnina og draumurinn er alltaf að klára þetta í úrslitakeppninni. Umgjörðin er meiri og meiri stemning í kringum þetta og það var algjör snilld að klára þetta í dag," sagði Kári sem er á leið í atvinnumennsku í sumar og lék því sinn síðasta leik fyrir Hauka, í bili að minnsta kosti.

 

„Allt gas og allur fókus var settur á þennan leik. Við hugsuðum ekki um að við ættum leik inni. Við gátum það ekki. Við ætluðum að gefa allt í þetta. Hjá mér var þetta síðasti leikurinn fyrir félagið og það kom ekki annað til greina en að taka þetta á lofti í dag og klára þetta og við gerðum það sannfærandi."

 

Mikil barátta einkenndi einvígi Hauka og Vals og var leikurinn í kvöld engin undantekning þó ekki verði sagt að leikurinn hafi verið grófur.

„Það var kítingur og læti allan tímann. En andinn í hópnum hjá okkur var geðveikur. Geðveik einbeiting og það var killer í mönnum. Við tókum þetta alla leið. Við tökum næstbesta lið á Íslandi, 3-1, og úrslitaleikinn með átta mörkum sem segir hverjir eru langbestir í dag," sagði Kári að lokum brosmildur með gullið um hálsinn.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×