Viðskipti erlent

Dýrasti hundur sögunnar keyptur á 70 milljónir

Hundur af tíbetsku kyni með nafnið Yangtze Fljótið Númer Tvö hefur verið seldur konu í Shaanxi héraði í Kína fyrir rúmar 70 milljónir kr. Er hann því dýrasti hundur sögunnar.

 

Fyrra metið átti Labradorhundurinn Lancelot Encore sem kostaði fjölskyldu í Flórída rúmlega 18 milljónir kr. en þess ber að geta að þar var um klónaðan hund að ræða af fyrri Lancelot sem var í eigu sömu fjölskyldu.

 

Samkvæmt frétt um málið í blaðinu The Times mun núverandi eigandi Yangtze Fljótið Númer Tvö, frú Wang, hafa leitað í ein tvö ár í Kína að fullkomnu eintaki af þessari hundategund. Er hún fann gripinn var hún staðráðin í að borga hvaða upphæð sem var fyrir hann.

 

Staða Yangtze Fljótið Númer Tvö sem dýrasta hunds sögunnar var svo staðfest þegar ekki færri en 30 limmósínur mættu á Xi´an flugvöllinn til að taka á móti honum við heimkomuna. Þar að auki var búið að safna saman fjölda hundaelskenda með borða sem mynduðu sérstaka móttökunefnd.

 

Hundar eru sívinsælli gæludýr í Kína og af þeim sökum eru ýmsar stórborgir þar í landi nú að íhuga takmarkanir á hundahaldi og banna umgengni hunda á opinberum stöðum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×