Handbolti

Birkir Ívar: Bauð mér bjór fyrir hverja sendingu fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Ívar Guðmundsson átti mjög góðan leik í marki Hauka.
Birkir Ívar Guðmundsson átti mjög góðan leik í marki Hauka. Mynd/Stefán

Birkir Ívar Guðmundsson átti mjög góðan leik í marki Hauka þegar þeir komust í 2-1 í úrslitaeinvígi sínu á móti Val með 28-25 sigri á Ásvöllum í gær. Birkir Ívar varði 18 skot í leiknum þar af voru tvö víti.

„Við komum inn í þennan leik með hundrað prósent einbeitingu og verðskulduðum sigurinn. Við spiluðum af fullri getu og af fullum krafti og ætlum að sjálfsögðu að gera það áfram," sagði Birkir Ívar.

Birkir Ívar duglegur að koma boltanum fram völlinn í hraðaupphlaupunum og einn sem naut góðs af því var hornamaðurinn Elías Már Halldórsson.

„Elías bauð mér bjór fyrir hverja sendingu og það var því sjálfsagt að kasta boltanum fram á hann," sagði Birkir Ívar í léttum tón en hann var ánægður með Elías Má sem skoraði fimm hraðaupphlaupsmörk í leiknum.

„Elías er rosalega áræðinn leikmaður í hraðaupphlaupum alveg eins og Freyr. Það skilaði sér vel í þessum leiknum því þeir voru báðir mjög snöggir upp," sagði Birkir Ívar.

„Við þurfum að vinna einn leik í viðbót og ætlum að reyna að gera það í næsta leik. Mér fannst við ekki vera að spila neitt illa í síðasta leik í Vodafone-höllinni en þeir áttu bara mjög góðan leik. Það má ekki taka það frá þeim," sagði Birkir Ívar.

„Þetta eru tvö hörkugóð handboltalið og það verður mjög erfiður og harður leikur eins og öll þessi rimma hefur verið," sagði Birkir að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×