Handbolti

Óskar Bjarni: Verður hörkurimma gegn Haukum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson.
Óskar Bjarni Óskarsson. Mynd/Arnþór

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var að vonum kampakátur með sigur sinna manna í kvöld. Hann er líka ánægður að mæta Haukum í úrslitum.

„Tölfræðin segir að það sé svakalegur munur á okkur heima og úti en þessi munur á ekki að vera svona mikill. Við vitum vel að við þurfum að fara á Ásvelli og stela leik. Annars verðum við ekki meistarar," sagði Óskar Bjarni.

„Við þurfum að fá meira jafnvægi í leikinn hjá okkur og halda víginu hér á heimavelli. Það er ekkert auðvelt að gera það," bætti Óskar Bjarni við.

Valsmenn eiga góðar minningar frá Ásvöllum þar sem þeir voru meistarar fyrir tveim árum síðan.

„Ég man að þið birtuð tölfræðina okkar þá á Ásvöllum sem var alveg hræðileg. Við brutum þá tölfræði þá og við þurfum að brjóta ákveðna tölfræði aftur núna með útileikina. Við ætlum að gera það en það verður vissulega erfitt.

Ég er mjög ánægður að þetta sé Haukar og Valur í úrslitum og vona að þetta fari í marga leiki. Það væri gott fyrir handboltann þó svo maður vilji alveg klára þetta í sem fæstum leikjum. Ég er samt viss um að þetta verður hörkurimma," sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×