Handbolti

Sigfús: Spurning um hvort liðið langar meira í titilinn

Sigfús Sigurðsson
Sigfús Sigurðsson Mynd/Arnþór

"Þetta eru að mínu mati tvö bestu lið landsins í dag og ef sigurinn kostar það að við séum blóðugir og brotnir, þá verður að hafa það. Ég veit að Haukarnir hugsa slíkt hið sama," sagði varnarjaxlinn Sigfús Sigurðsson hjá Val í samtali við Vísi þegar hann var spurður út í fyrsta úrslitaleik Hauka og Vals í N1 deildinni í kvöld.

Leikurinn í kvöld er á Ásvöllum í Hafnarfirði og hefst klukkan 19:45. Vísir spurði Sigfús hvað Valsmenn þyrftu að gera til að landa titlinum.

"Við þurfum að spila skynsamlega í sókninni, gera fáa tæknifeila, nýta færin okkar, spila góðan varnarleik og nýta hraðaupphlaupin okkar. Aðall okkar er auðvitað varnarleikurinn og það er hann sem við treystum áfram á. Það er raunar eins hjá Haukunum og því er þetta bara spurning um það hvort liðið langar meira að vinna titilinn," sagði Sigfús.

"Ég held að flestir sem eru að æfa séu í þessu til að komast í úrslitin og svitinn, tárin og blóðið er allt fyrir þetta," sagði línumaðurinn sterki.

Sigfús hefur ekki verið heill heilsu undanfarið og gat lítið beitt sér gegn HK í undanúrslitarimmunni.

"Skrokkurinn er auvitað orðinn dálítið gamall," sagði Sigfús, sem spilaði ekkert í fyrsta leiknum gegn HK í undanúrslitunum en kom aðeins við sögu í næstu tveimur.

"Í rauninni hefði ég ekkert átt að spila og er bara að bíða eftir að komast í aðgerð eftir tímabilið. Þá þarf að skoða hvað þarf að laga. Ég veit ekki hvernig ég verð á morgun ef ég fæ þá að spila, en það er seinni tíma vandamál," sagði Sigfús.

Hann segist alveg eins eiga von á að úrslitin ráðist ekki fyrr en í oddaleik í úrslitaeinvíginu.

"Á miðað við hvernig leikir þessara liða hafa spilast í vetur á ég alveg eins von á því að þetta fari í fimm leiki. Það væri auðvitað þægilegt að vinna 3-0 en ég á nú ekki von á að svo verði."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×