Handbolti

Patrekur: Erum með einn besta markvörð landsins

Ómar Þorgeirsson skrifar
Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. Mynd/Valli

„Við lögðum grunninn að sigrinum með góðri vörn og markvörslu á leikkafla í fyrri hálfleik þar sem við fengum í kjölfarið auðveld mörk úr hraðaupphlaupum. Við erum með fljóta hornamenn og þurfum að nýta okkur það vopn í sóknarleiknum.

Roland [Valur Eradze] er líka einn besti markvörður landsins og hann hjálpar mér mjög mikið bæði inni á vellinum og í þjálfuninni. Ef vörnin vinnur rétt þá er gott að vera með hann fyrir aftan og við eigum að geta nýtt okkur það," sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, í leikslok eftir 28-25 sigur Stjörnunnar gegn Fram í N1-deild karla.

Patrekur segir vissulega gott að fá stig á töfluna en segir að strákarnir sínir séu meðvitaðir um það að þeir þurfi að vera með báða fætur á jörðinni þrátt fyrir sigurinn.

„Við erum náttúrulega með ungt lið og þessir strákar vita það að þeir þurfa að hafa gríðarlega mikið fyrir því ef þeir ætla að vinna leiki. Við förum því ekkert á flug eftir að hafa unnið einn leik en ef við leggjum okkur hundrað prósent fram þá eigum við eftir að vinna marga leiki í vetur.

Okkar styrkur er og verður liðsheildin, stemningin og tengingin við félagið, að menn séu stoltir að spila fyrir félagið og elski bláa búninginn eins og maður var sjálfur í gamla daga," sagði Patrekur og hló við.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×