Viðskipti erlent

Vogunarsjóður á Guernsey tapar á Glitni

Vogunarsjóðurinn Close Enhanced Commodities Fund, sem staðsettur í á Guernsey gæti tapað allt að 17,5 milljónum punda eða um 3,5 milljörðum kr. á lánatryggingum sem veittar voru Glitni fyrir bankahrunið s.l. haust.

Sjóðurinn, sem er í eigu Close Brothers, hefur aðvarað fjárfesta sína um að fari svo að ekkert fáist upp í kröfur sjóðsins á hendur Glitni muni hagnaðurinn af rekstri sjóðsins minnka um 19% í ár. Samkvæmt Reuters myndi hagnaðurinn þá nema 214 pensum á hlut en ef allar kröfur sjóðsins á hendur Glitni yrðu greiddar næmi hagnaðurinn 265 pensum á hlut, að því er segir í frétt á Reuters um málið.

„Í kjölfar þess að íslenska stjórnvöld ákváðu að yfirtaka Glitnir Banki hf. telur stjórn sjóðsins líklegt að bankinn muni ekki standa við skuldbindingar sínar að fullu," segir í yfirlýsingu frá sjóðnum. Einnig kemur fram að í versta tilfelli fengi sjóðurinn ekkert upp í kröfur sínar.

Sjóðurinn hefur áður aðvarað fjárfesta sína um hugsanlegt tap af þessum kröfum en hingað til hafa engar upphæðir verið settar fram um umfang þess.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×