Handbolti

Þurftu að fljúga norður í búningunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik FH og Akureyrar í kvöld.
Úr leik FH og Akureyrar í kvöld.
Leikmenn Akureyrar höfðu ekki tíma til að skipta um föt eftir leik sinn gegn FH í kvöld og ruku beint út í rútu í búningunum.

Þar sem áætluð brottför frá Reykjavíkurflugvelli var aðeins tuttugu mínútum eftir að leik lauk í Hafnarfirði í kvöld þurfti að hafa hraðar hendur.

Akureyringum gafst því lítill tími til að fagna sigri sínum gegn FH.

„Við hlupum út í rútu og svo beint upp í vél þegar við komum á flugvöllinn. Við erum ennþá í búningunum," sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari og leikmaður Akureyrar, í samtali við Vísi í kvöld. Hann og aðrir leikmenn voru þá á leið til síns heima frá flugvellinum.

„Lyktin var athyglisverð. Við vorum örugglega ekki vinsælustu farþegarnir í flugvélinni," bætti hann við.

Hann var þó ánægður með úrslitin, fyrst og fremst. „Þetta snerist við í restina. Þetta var eins og í fyrsta leiknum okkar, þar sem við vorum með yfirhöndina lengst af en misstum svo leikinn úr höndunum."

„Það var frábær sóknarleikur síðasta korterið sem varð til þess að við unnum þennan leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×