Íslenski boltinn

Snjórinn setur bikarúrslitin í hættu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það er snjóábreiða á Laugardalsvellinum í kvöld.
Það er snjóábreiða á Laugardalsvellinum í kvöld. Mynd/KSÍ/Jóhann

Það hefur ekki oft gerst að það snjói á höfuðborgarsvæðinu áður en bikarúrslitaleikur karla fer fram í knattspyrnu. Jóhann Gunnar Kristinsson, vallarstjóri Laugardalsvallar, man ekki að það hafi gerst áður.

KR og Fjölnir mætast í bikarúrslitunum á laugardaginn klukkan 14.00 og bindur Jóhann vonir við að snjórinn verði farinn þá.

„Þetta fer alfarið eftir framhaldinu en það er augljóst að þetta hentar ekki vel til undirbúnings fyrir leikinn," sagði hann. „Það eina sem við getum vonað er að snjórinn bráðni og það bæti ekki meira í."

Hann segir þó ljóst að leikurinn geti ekki farið fram á vellinum ef hann verður þakinn snjó. „Það er dómarinn sem þarf að meta vallaraðstæður en það er ljóst að það verður ekki spilað á vellinum í því ástandi."

„Ég kvíði því hálfpartinn að skoða veðurspána en það er þó ágætt að völlurinn var sleginn í dag og hann gerður tilbúinn."

„Það góða er að það er ekkert frost í jörðinni og snjórinn því fljótur að hverfa. Það versta sem getur gerst er að völlurinn frjósi því þannig er hann stórhættulegur."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×