Eftir tiltölulega rólegan dag á bandarískum hlutabréfamarkaði í dag tók gengið dýfu skömmu fyrir lokun viðskipta. Tölur um atvinnuleysi vestra í síðasta mánuði verða birtar á morgun og skýrir það dýfuna að mestu.
Atvinnuleysi í Bandaríkjunum mælist nú 6,5 prósent og hefur ekki verið meira í fjórtán ár. Að sögn Associated Press-fréttastofunnar eru líkur á að gögnin sýni verulega aukningu í röðum atvinnulausra og muni hlutfallið þá fara í 6,8 prósent.
S&P 500 vísitalan, sem sýnir mjög vel þróunina á markaðnum, féll um 2,9 prósent. Þá féll Dow Jones-hlutabréfavísitalan um 2,5 prósent og Nasdaq-tæknivísitalan um 3,14 prósent.