Lækkunarhrina í Kauphöllinni

Lækkunarhrina einkenndi daginn í Kauphöllinni í dag. Gengi hlutabréfa í Eik banka og Bakkavör var það eina sem hækkaði á meðan gengi annarra lækkaði. Gengi bréfa í hinum færeyska Eik banka hækkaði um 3,21 prósent en í Bakkavör um 0,39 prósent. Á sama tíma féll gengi bréfa í Eimskipafélaginu um 8,2 prósent, í Existu um 5,35 prósent og um 5,13 prósent í Century Aluminum, móðurfélagi álversins á Grundartanga. Þá féll gengi bréfa í Spron um 4,35 prósent, í Landsbankanum um 3,46 prósent og Straums um 3,08 prósent. Gengi annarra félaga lækkaði minna. Úrvalsvísitalan féll um 2,47 prósent og stendur hún í 4.011 stigum.