Handbolti

Patrekur tekur við Stjörnunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Patrekur Jóhannesson, verðandi þjálfari Stjörnunnar.
Patrekur Jóhannesson, verðandi þjálfari Stjörnunnar.

Patrekur Jóhannesson mun taka við þjálfun Stjörnunnar í sumar þegar að Kristján Halldórsson lætur af störfum.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Stjörnunni í dag að samið hefur verið við Patrek til næstu fjögurra ára. Hann mun einnig annast sölu- og markaðsmál fyrir handknattleiksdeild Stjörnunnar.

„Það er nokkuð síðan að Kristján ákvað að hætta," sagði Patrekur við Vísi. „Ég er líka að klára skólann núna í vor og því hentar þessi tímasetning mér mjög vel. Ég hef fengið tilboð um að taka að mér þjálfun síðustu tvö ár en ýtti því frá mér þar til ég myndi klára skólann."

Hann segir að tilboð Stjörnunnar hafi hljómað vel og því hafi hann ekki verið lengi að slá til.

„Stjörnumenn eru að hugsa mikið til framtíðar og eru með markvissa stefnu, ekki bara fyrir meistaraflokkinn heldur einnig 2. og 3. flokk. Umhverfið verður líkara því sem gerist erlendis og það er vonandi að þessir ungu strákar séu tilbúnir í þá vinnu sem er framundan."

Kristján Halldórsson var á vikunum ráðinn Íþróttastjóri HSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×