Helena Sverrisdóttir og félagar í TCU léku í gær sinn síðasta leik á tímabilinu en liðið féll úr leik í WNIT-úrslitakeppninni er liðið tapaði fyrir Colorado í framlengdum leik, 96-90. Leikurinn var í fjórðungsúrslitum keppninnar.
TCU var með forystuna í leiknum lengst af en 16-3 sprettur Colorado þegar skammt var eftir af leiknum gerði það að verkum að leikurinn var framlengdur. Colorado var hins vegar sterkara í framlengingunni.
Helena Sverrisdóttir lék í 30 mínútur í leiknum og skoraði fjögur stig. Hún hitti úr tveimur af þremur skotum innan þriggja stiga línunnar en misnotaði öll fjögur skotin sín utan hennar.
Hún tók tíu fráköst í leiknum auk þess sem hún gaf tvær stoðsendingar og stal einum bolta.
Ítarlegt viðtal við Helenu um körfuboltann og lífið í Bandaríkjunum birtist hér á Vísi síðar í dag sem og við Jeff Mittie, þjálfara hennar hjá TCU.