Dwight Howard, leikmaður Orlando Magic, bar sigur úr býtum í troðslukeppni NBA deildarinnar í nótt. Howard var klæddur í Superman búning og sýndi skemmtileg tilþrif.
Gerald Green, sigurvegarinn frá því í fyrra, varð annar í troðslukeppninni að þessu sinni.
Í þriggja stiga keppninni var það Jason Kapono frá Toronto Raptors sem vann annað árið í röð. Hann hitti úr tíu þriggja stiga skotum í röð og fékk 25 stig. Hann jafnaði þar með stigamet Craig Hodges frá 1986.
Stjörnuleikur NBA deildarinnar verður í kvöld og í beinni útsendingu á Sýn. Útsending hefst klukkan rúmlega eitt eftir miðnætti.