Innlent

Þurfum að sækja um aðild að ESB.

Bryndís Hólm í Ósló skrifar

Ísland verður að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru sem gjaldmiðil til að losna við þá ofurbyrði sem hvílir á íslenskum heimilum og fyrirtækjum. Þetta sagði Árni Páll Árnason, varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, á ráðstefnu um Evrópumál sem haldin var í Ósló í dag.

Það voru samtök aðildarsinna Noregs að Evrópusambandinu, Evropabevegelsen, sem héldu ráðstefnuna þar sem fjallað var um framtíð og stefnu í Evrópumálum. Árni Páll Árnason og Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, voru meðal ræðumanna, en yfirskrift ráðstefnunnar var „Saman á morgun, ESB og EES eftir 50 ár".

Árni Páll sagði framtíðarverkefni Evrópu fela í sér svo mikla hagsmuni fyrir Ísland, að óboðlegt væri að hafa ekki bein áhrif á mótun þeirra reglna sem landið byggi við. Hann lagði áherslu á að tugmilljarða kostnaður heimila og fyrirtækja vegna íslensku krónunnar væri hrikalegur, í samanburði við ávinningin sem hlytist á sama tíma af EES samningnum.

Ekki sé hægt annað en að horfast í augu við það sem þurfi að gera - að sækja um aðild að ESB. Byrðin annars sé orðin það mikil.

„Í framhaldi af því eigum við að geta siglt inn í meiri stöðugleika," sagði Árni Páll. „Við tökum auðvitað ekki upp evru á einum degi, en yfirlýsing okkar um að við hyggjumst taka upp evru mun án efa verða til þess að skapa stöðugleika í samfélaginu og stöðugleika í efnahagslífinu og varða þannig veginn í átt til lægri vaxta og betri kjara í kjölfar upptöku evrunnar síðan í framtíðinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×