Doc Rivers, þjálfari Boston Celtics, mun stýra liði Austurdeildarinnar í stjörnuleiknum í NBA sem haldinn verður í New Orleans þann 17. febrúar.
Það eru þjálfarar liðanna tveggja sem eru með besta árangurinn í Austur- og Vesturdeild þann 3. febrúar nk. sem fá þann heiður að stýra úrvalsliðum Austur- og Vesturdeildar í stjörnuleiknum.
Boston hefur unnið 33 leiki og tapað aðeins 6 og því hefur Rivers þegar tryggt að hann verði þjálfari austurliðsins.
Enn er talsvert í að ráðist hver stýrir vesturliðinu, enda mörg lið í harðri samkeppni um efsta sætið þar. Þó er ljóst að það verður ekki Mike D´Antonio, þjálfari Phoenix, því samkvæmt reglum mega þjálfarar ekki stýra stjörnuliði tvö ár í röð og ef Phoenix verður með besta árangurinn í Vesturdeildinni þann 3. febrúar - verður það þjálfari liðsins í öðru sæti sem þjálfar í stjörnuleiknum.
Á fimmtudagskvöldið verður tilkynnt hverjir verða í byrjunarliðum austur- og vesturliðanna í stjörnuleiknum, en valið er byggt á kosningu á heimasíðu deildarinnar www.nba.com.
Þjálfarar í deildinni velja svo varamenn liðanna tveggja og niðurstöður úr því vali eru tilkynntar um mánaðamótin.
Leikurinn verður sýndur beint í sjónvarpi í meira en 200 löndum um allan heim - þar á meðal á sjónvarpsstöðinni Sýn hér á Íslandi.