Erlent

Grænlendingar stíga skref til sjálfstæðis

Óli Tynes skrifar
Hans Enoksen, formaður Grænlensku landstjórnarinnar.
Hans Enoksen, formaður Grænlensku landstjórnarinnar.

Grænlendingar taka sitt fyrsta skref til sjálfstæðis í nóvember á þessu ári þegar gengið verður til atkvæðagreiðslu um sjálfstjórn landsins.

Hans Enoksen, formaður grænlensku landstjórnarinnar skýrði frá þessu eftir fund með Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur.

Ekki leikur vafi á að sjálfstjórnin verði samþykkt í kosningunum og Enoksen segir að hún verði svo tekin upp 21. júní á næsta ári.

Enoksen sagði að fullt sjálfstæði hafi náttúrlega ekki verið rætt á fundi þeirra Anders Foghs.

Það sé hinsvegar í hjörtum Grænlendinga, og það sem þeir stefni að í framtíðinni.

Enoksen reiknar með að danskir stjórnmálamenn taki vel í óskir Grænlendinga um valdsvið þeirra í sjálfstjórninni. Meðal annars hvað varðar skiptingu olíutekna.

Hann vonast til þess að sjálfstjórnarnefndin ljúki störfum í lok febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×