Virtur rússneskur vísindamaður segir að Rússar séu komnir í forystu í keppninni um hverjir verða þeir fyrstu sem senda mannað geimfar til Mars. Rússar gætu lent mönnuðu fari á Mars árið 2025.
Lev Zelyony forstjóri Geimrannsóknarstofnunarinnar segir að mönnuð lending á Mars árið 2025 sé möguleg bæði efnhags- og tæknilega séð.
"Mars eru þau verðlaun sem koma til með að auka hvað mest við virðingu rússneska geimiðnaðarins," segir Zelyony. "Eins og kunnugt er töpuðum við kapphlaupinu um mann á tunglinu."
Bandaríkjamenn sendu menn til tunglsins árið 1969 í Apollo 11 undir stjórn Neil Armstrong. Síðasta mannaða för Bandaríkjana til tunglsins var árið 1972 er Apollo 17 flaug þangað.