Erlent

Musharraf biður bresku lögregluna um aðstoð

Óli Tynes skrifar

Pervez Musharraf, forseti Pakistans, hefur beðið bresku lögregluna um aðstoð við að rannsaka morðið á Benazir Bhutto. Eiginmaður stjórnmálakonunnar hafði lýst yfir vantrú á að pakistönsk yfirvöld væru hæf til þess.

Enn er deilt um hvað varð Benazir Bhutto að fjörtjóni. Yfirvöld gáfu út um það misvísindi yfirlýsingar. Í fyrstu var sagt að hún hefði verið skotin í höfuðið. Því var svo breytt og sagt að hún hafi dáið af miklu höfuðhöggi sem hún fékk þegar hún var að beygja sig eftir að hafa heyrt skothvelli.

Bhutto stóð þá upprétt upp um þaklúgu bifreiðar sinnar og veifaði til mannfjöldans. Yfirvöld sögðu að um leið og hún hefði beygt sig eftir skothvellina hefði sprengja verið sprengd sem hefði kastað henni á málmhandfang þaklúgunnar.

Eiginmaður Bhuttos hefur neitað að leyfa þarlendum sérfræðingum að kryfja lík hennar. Óljóst er hvort hann treystir breskum sérfræðingum til verksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×