Ólympíunefndin ákvað í dag að banna íþróttafólki frá Írak að taka þátt í Ólympíuleikunum sem hefjast í Peking eftir sextán daga.
Ástæðan er sú ákvörðun stjórnvalda í landinu að setja sína fulltrúa í Ólympíunefnd landsins. Samkvæmt reglum mega stjórnvöld ekki hafa afskipti af því.
Írak ætlaði að senda sjö keppendur til leiks á leikunum en þeir áttu að keppa í róðri, spretthlaupi, bogfimi, kraftlyftingum og júdó. Áfrýjun er ekki möguleg. Árið 2006 voru nokkrir nefndarmenn í Ólympíunefnd Íraks teknir í gíslingu af byssumönnum og hefur ekkert til þeirra spurst síðan þá.