Viðskipti erlent

Gengi Google ekki lægra í þrjú ár

Gengi hlutabréfa í bandaríska netleitarrisanum Google fór niður um 300 bandaríkjadala markið á þarlendum hlutabréfamarkaði í dag en það hefur ekki verið lægra síðan síðla árs 2005.

Mestu skipti um verðþróun bréfa í fyrirtækinu lækkað verðmat bandaríska bankans Citigroup á félaginu. Gerir það ráð fyrir að nokkuð muni hægja um á auglýsingamarkaði vestanhafs á yfirstandandi ársfjórðungi og muni það koma niður á netfyrirtækjum- og verslunum á borð við Google, eBay og Amazon.com.

Gengi bréfa Google féll um rúm 6,5 prósent og endaði í 291 dal á hlut. Það var enn á niðurleið eftir lokun markaða vestanhafs.

Google, sem fagnaði tíu ára afmæli í september síðastliðnum, var skráð á markað seint í ágúst árið 2004 og endaði í 100 dölum á hlut sama dag. Það steig svo jafnt og þétt og náði hæstu hæðum, 730 dölum á hlut, í nóvember í fyrra. Fljótlega eftir það tók gengið að síga nokkuð hratt.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×