Handbolti

Sameiginleg yfirlýsing frá FH og Haukum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Dómararnir reyna hér að skakka leikinn. Mynd/Stefán
Dómararnir reyna hér að skakka leikinn. Mynd/Stefán

Hafnarfjarðarfélögin FH og Haukar sendu í dag frá sér sameiginlega yfirlýsingu vegna slagsmála sem brutust út eftir bikarslag þessara liða um síðustu helgi.

Yfirlýsinguna má lesa hér að neðan.

„Yfirlýsing frá handknattleiksdeildum FH og Hauka vegna leiks FH og Hauka í 8 liða úrslitum Eimskipabikarkeppninnar sem fór fram í Kaplakrika sunnudaginn 7. desember sl.:

Deildirnar þakka þeim fjölmörgu stuðningsmönnum félaganna sem mættu og studdu dyggilega við bakið á sínum liðum á sunnudag og hjálpuðu til við að mynda frábæra stemningu á vellinum. Leikir FH og Hauka í handknattleik hafa jafnan verið góð auglýsing fyrir íþróttina og síðustu tvær viðureignir liðanna eru engar undantekningar á því.

Því miður áttu sér stað nokkur leiðinda atvik undir lok leiksins sem félögin harma og munu taka á innan sinna raða. Félögin leggja mikla áherslu á að leikmenn séu börnum og unglingum jákvæðar fyrirmyndir innan vallar sem utan. Það er von félaganna að þessi atvik varpi hvorki skugga á frábæran handboltaleik né dragi úr þeim meðbyr sem handknattleiksíþróttin hefur notið undanfarin misseri.

Félögin munu hér eftir sem hingað til leggja áherslu á að stuðla að skemmtilegri og fjölskylduvænni umgjörð leikja. Við hvetjum alla handknattleiksunnendur og fjölmiðla til leggja okkur lið í þeirri viðleitni og vonum að árangurinn birtist í enn frekari aukningu iðkenda og áhorfenda.

Virðingarfyllst,

Þorgeir Arnar Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH.

Þorvarður Tjörvi Ólafsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×