Handbolti

Björgvin semur við Bittenfeld

Elvar Geir Magnússon skrifar
Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson.

Handboltamarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson í Fram hefur gert tveggja ára samning við þýska félagið Bittenfeld. Liðið leikur í suðurriðli í 2. deild þar í landi.

Björgvin fór til liðsins til að skoða aðstæður í byrjun mánaðarins og sagði þá m.a. í viðtali við Fréttablaðið: „Ég vissi í raun ekki við hverju ég ætti að búast þegar ég fór út þar sem liðið er nýliði í 2. deildinni og er ekkert að gera neitt allt of góða hluti þar. Félagið kom mér hins vegar skemmtilega á óvart."

„Mér leist mjög vel á allar aðstæður þar og mikið er lagt upp úr allri umgjörð í kringum liðið. Bittenfeld hefur farið upp um fjórar deildir á síðustu fimm árum og það er greinilega mikill metnaður í kringum félagið, en liðið sjálft er ungt og efnilegt," sagði Björgvin Páll.

„Ég er náttúrlega bara tæplega 23 ára gamall, sem er mjög ungt að markvarðarárum, en mér finnst vera kominn tími á að ég takist á við nýja áskorun á mínum ferli. Ég held að það sé líka rétt ákvörðun hjá mér að vera ekkert að fara fram úr mér heldur fara til liðs þar sem ég á góðan möguleika á því að spila mikið og get þar af leiðandi tekið framförum og bætt minn leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×