Handbolti

Valur vann stórsigur á FH

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Baldvin Þorsteinsson skoraði tíu mörk fyrir Val í kvöld.
Baldvin Þorsteinsson skoraði tíu mörk fyrir Val í kvöld. Mynd/Anton

Valsmenn eru með þriggja stiga forystu á toppi N1-deildar karla eftir níu marka sigur á FH í kvöld, 29-20.

Alls fóru þrír leikir fram í deildinni í kvöld. Akureyri mistókst að komast upp í annað sæti deildarinnar er liðið tapaði fyrir HK á útivelli, 25-21. Þá unnu Haukar sigur á Víkingum á útivelli, 25-22.

Valur er með fimmtán stig í efsta sæti deildarinnar en næstu fjögur lið í deildinni eru öll með tólf stig. Þetta eru FH, Akureyri, Haukar og Fram.

Liðin hafa þó spilað mismarga leiki. Valur og Akureyri hafa spilað ellefu leiki, FH og Haukar tíu en Fram níu.

HK er svo í sjötta sæti með tíu stig eftir jafn marga leiki, Stjarnan í því sjöunda með sex og Víkingur á botninum með eitt stig. Fram og Stjarnan mætast laugardaginn.

Valur átti stórleik í síðari hálfleik í kvöld en staðan í hálfleik gegn FH var 12-11, Val í vil. Baldvin Þorsteinsson fór á kostum í leiknum og skoraði tíu mörk en Arnór Þór Gunnarsson sjö.

Hjá FH voru Aron Pálmarsson og Jónatan Jónsson markahæstir með fjögur mörk hvor.

Haukar voru með fjögurra marka forystu gegn Víkingi í hálfleik í kvöld, 16-12. Elías Már Halldórsson skoraði flest mörk Haukamanna eða sjö talsins. Einar Örn Jónsson kom næstur með fjögur.

Hjá Víkingum var Sverrir Hermannsson markahæstur með fimm mörk en þeir Einar Örn Guðmundsson og Þröstur Þráinsson komu næstir með fjögur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×