Körfubolti

Helena tryggði TCU sigur í fyrsta leik tímabilsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir í leik með TCU.
Helena Sverrisdóttir í leik með TCU. Mynd/TCU/Keith Robinson
Helena Sverrisdóttir byrjaði tímabilið vel í bandaríska háskólaboltanum en hún var stigahæst með tólf stig í 56-55 sigri Texas Christian University (TCU) á Oklahoma City í fyrsta leik tímabilsins í nótt. Þetta var æfingaleikur og fór hann fram á heimavelli TCU í Forth Worth. Oklahoma City var yfir í hálfleik 27-26 en leikurinn var æsispennandi allan tímann.

Helena tryggði TCU sigurinn með því að setja niður tvö víti þegar aðeins 3,4 sekúndur voru eftir á klukkunni. Hún lét þjálfara Oklahoma ekki trufla sig en hann tók bæði leikhlé fyrir vítaskotin og á milli þeirra. Helena hafði einnig gefið stoðsendingu í sókninni á undan og náð mikilvægu varnarfrákasti sem tryggði TCU möguleika á að vinna leikinn.

Helena var í villuvandræðum í leiknum en skilaði samt fínum tölum á þeim 26 mínútum sem hún spilaði. Auk stiganna tólf var hún með 8 fráköst, 5 stoðsendingar og 1 stolinn bolta. Hún var bæði stigahæst og stoðsendingahæst í liðinu auk þess að bara einn leikmaður TCU tók fleiri fráköst en hún. Helena hitti úr 5 af 9 skotum sínum og tapaði aðeins einum bolta.

Helena byrjaði leikinn í stöðu framherja eins og hún gerði svo oft í fyrravetur en lið TCU er mikið breytt. Sem dæmi um breytingarnar voru þrír nýir leikmenn í byrjunarliðinu í þessum leik. Helena spilaði ekki mikið í fyrri hálfleiknum eftir að hafa fengið 3 villur en hún var mjög öflug í þeim síðari með 8 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar.

Næsti leikur TCU er fyrsti alvöru leikur tímabilsins en hann verður gegn Maryland 14. nóvember. Maryland er með mjög sterkt lið sem þjálfarar í bandarísku háskóladeildinni spá að sé það þriðja besta í landinu í spá gerða af ESPN og USA Today. Það mun því mikið reyna á Helenu og félaga í þeim leik um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×