Handbolti

Klárlega einn af leikjum ársins í N1-deildinni

Fram og Haukar mætast í toppbaráttuleik N1-deildar karla í handbolta í Framhúsinu í Safamýri kl. 16:00 í dag. Liðin skildu jöfn 29-29 í Framhúsinu í lok september og Haukarnir unnu 26-20 tæpum mánuði síðar að Ásvöllum í N1-deildinni fyrr í vetur.



Gunnar Berg Viktorsson, fyrrum leikmaður Fram og núverandi leikmaður Hauka, telur leikinn afar mikilvægan fyrir bæði lið.



„Eins og þetta er að spilast þá er þetta bara einn af úrslitaleikjum N1-deildarinnar, það er nokkuð ljóst. Við erum búnir að tapa þremur stigum upp á síðkastið og gerum okkur fyllilega grein fyrir því hversu mikilvægur þessi leikur er upp á framhaldið. Ef við vinnum, þá komum við okkur aftur í þægilega stöðu til að anda aðeins og við stefnum að sjálfsögðu að sigri eins og alltaf,“ sagði Gunnar Berg sem telur Haukaliðið ekki endilega vera að koma á óvart með að sitja á toppi deildarinnar.



„Við stefndum alltaf að því að vera í toppbaráttunni og það er eitt af því sem þjálfarinn Aron Kristjánsson kom með inn í Haukaliðið, það er þessi sigurvilji og þetta sigurhugarfar,“ sagði Gunnar Berg og Andri Berg Haraldsson, leikmaður Fram, er ekki síður hrifinn af áhrifum þjálfara síns Ferenc Antal Buday á Fram liðið.



„Ég er gríðarlega ánægður með Ferenc og hann er að koma með nýjar æfingar inn í þetta og jafnvel æfingar sem maður hefur ekki kynnst áður á Íslandi,“ sagði Andri Berg sem er gamall FH-ingur og á því ekki í miklum erfiðleikum með að gíra sig upp í leikinn gegn Haukum.



„Ég hef nú reyndar ekki verið mjög sigursæll gegn Haukaliðinu í gegnum tíðina og hef fulla löngun til að breyta því með Fram í framtíðinni. Bæði við og Haukar höfum verið að spila fastan varnarleik og fínan sóknarleik í deildinni og ég held að þessi leikur verði klárlega einn af leikjum ársins,“ sagði Andri Berg að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×