Íslendingurinn sem hefur setið í fangelsi í Færeyjum vegna Pólstjörnumálsins hefur verið í einangrun í nær fjóra mánuði. Mál hans verður dómtekið í byrjun apríl.
Maðurinn var handtekinn 18. september og þá úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hann var þá settur í einangrun. Októbermánuð allan var einangruninni aflétt og maðurinn var í opinni gæslu, en síðan var hann aftur settur í einangrun í lok þess mánaðar og er þannig vistaður enn.
Íslendingurinn verður ákærður fyrir vörslu á tveimur kílóum af fíkniefnum svo og aðild að Pólstjörnumálinu í heild sinni. Sex íslenskir karlmenn voru dæmdir í því máli í gær.
Varðandi einangrunarvistina segir Linda Margarete Hasselberg, saksóknari í máli Íslendingsins, að ástæða þess að fólki sé haldið í einangrun sé sú að grunur leiki á um að viðkomandi hafi möguleika til að hafa áhrif á framburð vitna. Hún kveðst ekki vilja tjá sig um þetta tiltekna mál, til að mynda hvers vegna Íslendingurinn hafi verið settur aftur í einangrun.
Saksóknari segir að Íslendingurinn fái að fara út öðru hvoru en megi ekki umgangast aðra en starfsmenn fangelsisins.
„Við notum sjaldan einangrunarvist hér í Færeyjum,“ segir saksóknari. „En þarna er um mjög alvarlegan glæp að ræða og að mati ákæruvaldsins er enginn annar kostur í stöðunni. Við endurmetum stöðuna í hverri viku.“
Málsmeðferð fyrir dómi hefst 7. apríl. Tólf manna kviðdómur verður kallaður til en það er gert þegar brotið er talið geta varðað fjögurra ára fangelsi eða meira.
Í einangrun í fjóra mánuði í Færeyjum
Jóhanna Sigþórsdóttir skrifar
