Erlent

Kosið í Kósóvó

Guðjón Helgason skrifar

Íbúar í Kósóvó-héraði ganga að kjörborðinu í dag og kjósa héraðsþing - þrátt fyrir að enn ríki algjör óvissa um framtíð héraðsins.

Ekki er aðeins kosið til héraðsþingsins því einnig er kosið um sæti í sveitastjórnum í héraðinu. 90% íbúa þar eru Albanir sem vilja sjálfstæði frá Serbíu. Serbar eru því andvígir. Kostúnitsa, forsætisráðherra Serbíu, hefur varað við því - það myndi helypa öllu í bál og brand á svæðinu.

Atlantshafsbandalagiðyfirtók héraðið eftir fjöldamorð serbneskra sveita á albönskum íbúum 1999. Síðan hefur ekki verið hægt að semja um hvort Kósóvó verði áfram hérað í Serbíu, sjálfstætt ríki eða þá eitthvað annað.

Ljóst er að það þing sem kosið verður í dag vill sjálfstæði og nýr forsætisráðherra verður með stjórnartaumana - en Agim Ceku, skæruliðaleiðtoginn fyrrverandi og fráfarandi forsætisráðherra - er ekki í framboði. Serba í héraðinu kjósa fæstir í dag - enda krafa ráðamanna í Belgrað að þeir sniðgangi kosningarnar. Um 150 fulltrúar frá Evrópuráðinu fylgjast með framkvæmd kosninganna í dag.

Hashim Tachi, leiðtogi stærsta flokks í héraðinu og fyrrverandi skæruliðaleiðtogi, segir ekki kosið um sjálfstæði í dag. Þess þurfi ekki. Því verði lýst yfir strax 10. desember næstkomandi.

Þá skila fulltrúar Rússa, Bandaríkjamanna og Evrópusambandsins skýrslu um hvernig viðræðum hafi miðað milli deilenda. Ekkert bendir til þess að árangur náist. Bandaríkjamenn styðja Kósóvó-Albani en Rússar styðja Serba. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur ekki ályktað eða greitt atkvæði um málið því Rússar hafa látið að því liggja að þeir myndu beita neitunarvaldi sínu í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×