Erlent

Chavez hótar spænskum fyrirtækjum

Óli Tynes skrifar
Chavez er af mörgum kallaður kjaftaskur Suður-Ameríku. Hann kann því illa.
Chavez er af mörgum kallaður kjaftaskur Suður-Ameríku. Hann kann því illa.

Hugo Chavez forseti Venesúela hótar spænskum fyrirtækjum öllu illu ef Juan Carlos konungur biður hann ekki afsökunar á því að segja honum að halda kjafti.

Konungur lét þessi hvössu orð falla á ráðstefnu spænsk-amerískra ríkja í Chile um síðustu helgi.

Þar úthúðaði Chavez Jose Maria Aznar, fyrrverandi forsætisráðherra Spánar. Kallaði hann meðal annars fasista.

Núverandi forsætisráðherra Jose Luis Zapatero reyndi kurteislega að bera blak af fyrirrennara sínum. Hann sagði meðal annars við Chavez að það væri vel hægt að vera ósammála einhverjum án þess að uppnefna hann.

Chavez lét sér ekki segjast og var með stöðug framíköll meðan Zapatero talaði. Spánarkonung brast þá þolinmæðin og hann hrópaði að Chaves; "Af hverju heldur þú ekki kjafti."

Viðstaddir fréttamenn segja að þótt þetta hafi verið óvenjuleg kveðja á slíkum stað, hafi Spánarkonungur líklega talað fyrir munn margra. Chavez er enda stundum kallaður kjaftaskur Suður-Ameríku.

Á blaðamannafundi sagði Chaves að konungurinn hefði misst stjórn á skapi sínu og það minnsta sem hann gæti gert væri að biðjast afsökunar.

Og forsetinn lét á sér skilja að ef hann ekki gerði það, gæti syrt í álinn hjá spænskum fyrirtækjum í Venesúela; "Við höfum enga þörf fyrir Stantander og BBVA(spænskir bankar). Og það segir enginn að við getum ekki þjóðnýtt aftur það sem við höfum einkavætt."

Á Spáni er Juan Carlos hinsvegar þjóðhetja. Brosandi út að eyrum segja Spánverjur hver öðrum að halda kjafti, af minnsta tilefni. Því er tekið með skellihlátri. En forseta Venesúela er ekki skemmt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×